Jörfi þakkar fyrir stuðning þinn við styrktarverkefni klúbbsins

04.12.2011
Eins og áður hefur komið fram pökkuðu Jörfafélagar sælgæti niður í 500 kassa til að selja fyrir jólin. Viðtökurnar voru frábærar. Kiwanisklúbburinn Jörfi vill þakka fyrir þessar frábæru viðtökur og stuðninginn við styrktarverkefni klúbbsins. Kiwanis eru alheimssamtök sjálfboðaliða sem hafa að markmiði að bæta heiminn með þjónustu í þágu barna.

Kiwanishreyfingin var stofnuð árið 1915 og hefur á síðari árum breiðst út um allan heim.  Í dag eru félagar alls rúmlega 340.000  í  9.000 klúbbum, sem dreifðir eru um 74 þjóðlönd í öllum heimsálfum. Í Kiwanisklúbbnum Jörfa eru 32 félagar sem vinna saman í anda Kiwanishreyfingarinnar. Helstu fjáraflanir Jörfa eru sviðaveisla fyrsta vetrardag, sælgætissala fyrir jólin og blómasala með útkeyrslu á konudaginn. 

 Helstu  styrktarverkefni á síðasta starfsári voru: Umhyggja, Ljósið, Vímulaus æska / Foreldrahús, Bergmál og Parkinsonsamtökin . Þá voru gefnar 13 matarkörfur fyrir jólin til þurfandi fjölskyldna í Árbæjarsókn. Jörfi hefur um árabil verið með tvö börn í fóstri í SOS þorpunum. Styrkveitingar á síðasta starfsári voru alls um  900.000 krónur.

Félagslífið er blómlegt, fundir tvisvar í mánuði yfir veturinn, gjarnan með fyrirlesara, gróðursetningarferð, sumarútilega og árshátíð Jörfa.  

Jörfi heldur úti öflugri og lifandi heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með störfum klúbbsins og skoða myndir, eða hafa samband.

 

http://jorfi.kiwanis.is