Minning
23.07.2023
Guðjón Kristján Benediktsson fæddist 31. október 1937 og ólst upp í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp. Hann lést 13. júlí 2023.
Einn af okkar góðu félögum í Kiwanisklúbbnum Jörfa, Guðjón Benediktsson, er látinn. Hann gekk í klúbbinn fyrir 34 árum og var í hópi þeirra sem lengst höfðu starfað þar. Guðjón var einn af þessum hæglátu en traustu félögum sem aldrei trana sér fram en eru alltaf tilbúnir til starfa þegar þarf. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn; forseti, gjaldkeri og margoft meðstjórnandi. Duglegur að mæta á fundi og ekki síður til starfa við hin ýmsu verkefni þegar á þurfti að halda. En ekki síst minnist ég hans einstaklega góðu nærveru og hægláta húmors. Ég held að öllum hafi liðið vel í hans félagsskap og það skiptir miklu fyrir alla í svona klúbbi. Hans verður sárt saknað þegar við hefjum vetrarstarfið í haust.
Ég vil fyrir hönd félaganna í Jörfa senda Sigrúnu konu hans, börnum og fjölskyldu allri innilegar samúðarkveðjur.
Haraldur Finnsson,
fráfarandi forseti
Jörfa.