Ferðasaga Jörfa 2022.

27.05.2022

Kiwanisklúbburinn Jörfi efndi til utanlandsferðar dagana 11.-21.maí 2022 til eyjunnar Madeira.  Tilefnið var að halda stjórnarkjörsfund og um leið efla félagsandann og vináttuna og auðvitað að skemmta sér.  Sama hafði verið gert 2019 en þá var Berlín gististaðurinn.  Bernharð Jóhannesson undirbjó og skipulagði ferðina rétt eins og Berlínarferðina og gerði það óaðfinnanlega að vanda.  14 félagar ásamt konum sínum,  tvær ekkjur látinna Jörfafélaga og Ásvaldur svæðisstjóri Freyjusvæðis og frú. Alls 29 manna hópur sem fór með stórum hópi á vegum Vita ferðaskrifstofu.

Fundur númer 818 í Jörfa var haldinn í Golden Residence Hótel Madeira 14.maí. Stjórnarkjörs fundur/konukvöld. Á þessum fundi voru stjórn og nefndir næsta starfsár kynnt og einnig voru tveir félagar sæmdir Gullkiwanisstjörnu fyrir vel unnin störf, það voru þeir Bernhard Jóhannesson og Friðjón Hallgrímsson

Skemmst er frá að segja að ferðin tókst einstaklega vel, eyjan er yndis fögur enda oft nefnd Blómaeyjan en sæbrött og reynir vel á fætur.  Samveran sýndi hve vináttan innan klúbbnum er sterk og samheldnin mikil.  Andinn sérlega  góður og var gjarnan safnast  saman við sundlaugina bæði fyrir og eftir skoðunar- og verslunarferðir og á kvöldin.  Sögur sagðar og mikið hlegið. Veðrið var gott, 17°-18° á morgnana og hitnaði svo mest upp í 29° þegar leið á daginn. Spáði rigningu varð eiginlega aldrei vart.  Ferðin skilur eftir ógleymanlegar minningar og Madeira er magnaður staður. Aðeins einn skugga bar á þessa ferð, okkar góði félagi, Pétur Sveinsson lést eftir erfið veikindi 12.mai.  Jörfafélagar minnast hans með djúpum söknuði.

 Haraldur Finnsson