Jörfa fréttir
21.01.2021Ekki þarf að fjölyrða um að félagsstarfið í Jörfa hefur verið með allt öðrum hætti en nokkurn tíma áður. Grípa varð til nýrra lausna í samkomutakmörkunum vorsins og reyndust félagarnir búa yfir umtalsverðri aðlögunarhæfni þrátt fyrir að félagarnir séu nokkuð við aldur þá tókst það furðu vel. Netið var notað og nýttist vel. Á vormisseri voru tillögur um nýja stjórn kynntar og síðar samþykktar í netpósti. Eftir veirulítið sumar var haldinn stjórnarfundur 14.sept. á Hótel Natura.Þar var ákveðið að halda stjórnar- skiptafund 29. sept. 2020 þrátt fyrir að veira væri farin að færa sig verulega upp á skaftið og að einhverjir félagar myndu ekki treysta sér til að mæta vegna hennar. Fráfarandi stjórn hafi setið í tvö ár, sem er nýmæli, og gott að ný stjórn taki við til næstu tveggja ára og takist á við félagsstarfið við nýjar og óvissar aðstæður. Konný svæðisstjóri sá um stjórnarskiptin með myndar- skap og var þetta frumraun hjá henni þó þess sæjust ekki merki enda hafði hún eiginmann sinn og fyrrum Evrópuforseta sér til halds og trausts. Nýkjörinn forseti gaf strax út þá fyrirætlan að fresta öllum fundum í „Co- vid” um óákveðinn tíma. Á fundinum mættu fulltrúar Félags lesblindra og tóku við einnar milljónar króna styrk frá Jörfa í tilefni af 45 ára afmælis hans. Við erum viss um að aðstoð við þá sem gengur erfiðlega við lestur er brýnt verkefni. Reikningar og fjárhagsáætlun næsta árs voru síðan kynnt og síðan samþykkt í netpóstum. Síðan voru haldnir tveir stjórnarfundir á Zoom á netinu og tókust vel. Þar var ákveðið að fresta jólafundinum og konukvöldi fram yfir áramót uns slíkt samkomuhald verður heimilað.Fyrirhugað er að halda næsta stjórnarfund um miðjan janúar með sama sniði. Eitt helsta fjáröflunar- verkefni klúbbsins, sviðasalan, rann út í sandinn í haust vegna Covid-19 takmarkana. En öðru verkefni var haldið til streitu, salan á jólasælgæti. Við nutum góðrar aðstöðu hjá “Takk hreinlæti” og gátum pakkað og gengið frá sælgætiskössum án þess að brjóta gegn sóttvarnarreglum. Þá fylgdum við fyrri venju að færa fátækum jólaglaðning í sóknum Árbæjar og Grafarholts. Sáu sóknarprestar um úthlutun. Samkomutakmarkanir síðasta árs hafa valdið mörgum óþægindum og áhyggjum. Fólk einangrast einkum þeir sem ekki búa að stórum fjölskyldum. Fjöldi fólks stundar vinnu sína heima við og nauðsynlegir fundi og samræður fara fram á netinu. Ég hef velt fyrir mér hve erfiðlega samtökum eins og okkar gengur að fá nýtt fólk til starfa. Yngra fólk ber við önnum en samt er vinnutíminn ekki lengri en fyrrum en önnur viðfangsefni draga greinilega til sín. Sumir segjast ekki vilja binda sig og ég hygg að skuldbindingar eins og fundasókn dragi úr áhuga. Velti því fyrir mér hvort fundirnir okkar séu að fæla frá. Ef til vill þurfum við að huga að breytingum á innra starfi klúbbanna varðandi þá. Trúi að margir vilji enn vinna að góðum málefnum.
Haraldur Finnsson forseti Jörfa.