Fundur nr. 738 í Kiwanisklúbbnum Jörfa haldinn 1.febrúar

03.02.2016
Gestir fundarins, Hrafn Jökulssson blaðamaður, rithöfundur og skákfrömuður og Stefán Herbertsson formaður Kalak, vinafélags Grænlands og Íslands, fluttu fyrirlestur um Grænland og sýndu myndir.  Hafði Hrafn orð fyrir þeim en Stefán fyllti upp í og svaraði einnig spurningum.  Erindi þeirra félaga var fróðlegt og gaf glögga innsýn í líf nágranna okkar á austurströnd Grænlands.

1.       Þar eru aðeins nokkur þúsund íbúar sem lifa við fábreytt atvinnulíf og einangrun.  Þessi nágrannlönd eru ólík, Grænland eitt elsta land á jörðinni en Ísland það yngsta.  Þrátt fyrir nálægðina væru furðu fáir Íslendinga sem hefðu þangað hefðu komið, aðeins 4 af viðstöddum. Stærð landsins er 20 föld stærð Íslands en íbúar aðeins um 60 000.

Íbúar austurstrandarinnar eru einangraðir frá öðrum íbúum og tala tungumál sem er ótöluvert frábrugið því sem talað er annars staðar á Grænlandi. Enn er gamla veiðimannamenningin rík í þessum samfélögum og fylgir aldagömlum hefðum í t.d. skiptingu afla milli manna. Og enn er það einkenni á íbúunum að lifa fyrir daginn í dag. Til að gefa mynd af fjarlægðum þarna þá búa flestir í Tasiilak og smærri þorpum á því svæði, m.a. Kúlusuk þar sem flugvöllurinn er. En svo er þorpið Scoresbysund með 400 íbúum 1000 km. norðar.

Skákfélagið Hrókurinn vann ötullega  að útbreiðslu skáklistarinnar í grunnskólum á Íslandi og upp úr aldamótunum höfðu Hróksfélagar heimsótt alla grunnskóla landsins.  Þá kom upp sú hugmynd að snúa sér að Grænlendingum og fyrsta skákmótið á Grænlandi var haldið 2003.  Undanfarið hefur verið lögð áhersla á Austur-Grænland og samskiptin snúist um fleira en skák undir kjörorðunum virðing – vinátta – kærleikur.  Þar hefur Kalak vinafélag komið mikið við sögu og undanfarin ár hafa 11 hópar barna frá A-Grænlandi komið til Íslands í kynnisferð og sundkennslu.  Mikil upplifun fyrir þau.  Samskipti Íslendinga við Grænland eru vaxandi  bæði í atvinnulífi eins og útgerð og virkjanasmíði og í menningarmálum.  Nú er stefnt að því að aðstoða Grænlendinga við að  senda skáksveit á næsta Ólympíumót.  Einhvern pata höfðu þeir félagar að e.t.v. væri starfandi Kiwanisklúbbur í Tasiilak (Angmasalik).  Þeir félaga munu kanna það. 

Erindi þeirra félaga vakti mikla athygli, fjörugar umræður og spurningar. Forseti afhenti þeim fána félagsins í þakkarskyni.

 

Myndir hér