Jörfi þakkar fyrir stuðning þinn.
01.12.2015Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða.
Í dag eru starfandi 35 Kiwanisklúbbar í umdæminu Ísland-Færeyjar með um það bil níu hundruð félögum. Eitt kunnasta verkefni Kiwanis á Íslandi, í samvinnu við Eimskipafélagið, er að gefa öllum 1.bekkingum í grunnskólum landsins reiðhjólahjálma, verkefni sem vakið hefur athygli víða um heim.
Í Kiwanisklúbbnum Jörfa er nú 31 félagi sem vinna saman í anda Kiwanishreyfingarinnar. Helstu fjáraflanir Jörfa eru sviðasala í október, sala á sælgætiskössum fyrir jólin og blómasala með útkeyrslu á konudaginn.
Kiwanisklúbburinn Jörfi fagnaði 40 ára afmæli sínu 28.maí s.l. og af því tilefni færði hann Endurhæfingarstöðinni að Reykjalundi þrekhjól að verðmæti um ein milljón krónur, en styrkveitingar á síðasta starfsári voru alls tæplega 1,9 milljón króna. Þá voru gefnar 13 matarkörfur fyrir jólin til þurfandi fjölskyldna í Árbæjarsókn. Jörfi er auk þessa með þrjú börn í fóstri í barnaþorpum SOS, í El Salvador, á Haítí og á Indlandi. Jörfi tekur þátt í alheimsverkefni Kiwanis og UNICEF til að útrýma stífkrampa.
Jörfi heldur úti öflugri og lifandi heimasíðu, þar sem hægt er að fylgjast með starfsemi klúbbsins, skoða myndir frá starfinu, eða hafa samband. Og svo erum við líka á Facebook !
Jörfi þakkar fyrir stuðning þinn við styrktarverkefni klúbbsins
og óskar þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla.
GHG