Stiklur úr 40 ára sögu Kiwanisklúbbsins Jörfa.
21.09.2015Kiwanisklúbburinn Jörfi varð 40 ára 28.maí 2015. Hann var stofnaður í Árbæjarhverfinu og voru stofnfélagar 22. Móðurklúbbar hans voru Hekla og og Elliði. Fyrsti forseti klúbbsins var kjörinn Ævar Breiðfjörð. Af stofnfélögum eru 4 enn félagar.
Alls hafa 94 verið félagar í klubbnum um lengri eða skemmri tíma. Lengst af voru félagar milli 20 og 30 og eru nú 30. Þar af eru 12 sem verið hafa í klúbbnum í meira en 25 ár. Í gegnum árin hafa margir Jörfafélagar gengt trúnaðarstörfum fyrir Kiwanishreyfinguna bæði á Íslandi og í Evrópusamtökunum. M.a. hafa þrír félagar gengt starfi umdæmisstjóra í umdæminu Ísland –Færeyjar.
Kiwanishreyfingin hefur undanfarin ár átt í erfiðleikum vegna fækkunar félaga og því eru Jörfamenn nokkuð hreyknir af að hafa ekki aðeins haldið í horfinu heldur náð að fjölga aðeins í hópnum. Þó er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af endurnýjun því meðalaldur félaganna er nokkuð hár eða rétt um 70 ár. Þó menn beri aldurinn vel þá er ljóst að nauðsynlegt er að yngja verulega upp í hópnum. Horfum við til þess að yngri félagarnir dragi sína félaga með sér inn í klúbbinn til að taka þátt í starfinu.
Rétt er að huga að því hvað felst í starfi í Kiwanisklúbbi? Hver er tilgangurinn með starfinu? Höfða hin hefðbundnu markmið Kiwanishreyfingarinnar til yngra fólks nútímans? Er það svo að þjónustumarkmið hreyfingarinnar ríma ekki við vaxandi sjálflægni og einstaklingshyggju? Eru svokallaðir samfélagsmiðlar og snjall-samskiptatæki að yfirtaka svo samskipti fólks að það hefur ekki þörf fyrir að hitta aðra augliti til auglitis? Vissulega hafa gríðarlegar breytingar átt sér stað á síðustu árum í tækni á þessu sviði og víst er að taka verður mið af þeim. En því verður ekki trúað að vilji og löngun til að láta gott af sér leiða, vinna saman að framvindu góðra og þarfra verkefna sé á undanhaldi. Að geta sagt, þetta var gott hjá okkur, þarna komum við að góðu gagni, sé ekki lengur nokkurs virði. Enn síður að hittast í góðum hópi, bindast vináttuböndum, skemmta sér og æfa sig og efla í félagsfærni sé eitthvað sem ekki skipti máli lengur. Raunar má færa að því rök að þörf fyrir slíkt sé enn brýnni en áður. Einmanaleiki og einstæðingsskapur verður mörgum að þungbær.
Starf Jörfa hefur einkennst af gleði og vináttu. Gleði við að vinna saman að góðum verkefnum, gleði á góðra vina fundum og ekki síst við að finna framlög okkar koma að gagni. Rækt hefur verið lögð að hafa starfsemina fjölskylduvæna með því að blanda eiginkonum og allri fjölskyldunni sem mest inn í starfið með fjölskyldufundum, konukvöldum og sumarferðum með börnum og barnabörnum. Þannig myndast tengsl sem ekki miðast eingöngu við félagana sjálfa.
Þá er fróðlegt að glugga í gamlar fundargerðarbækur og sjá hvað menn tóku sér fyrir hendur til að afla fjár í styrktarsjóðinn. Þar kennir margra grasa og segir ýmislegt um samfélagið á hverjum tíma Fyrstu árin var sala á jólapappír mikilvæg fjáröflun, einnig sala á „húsbréfum“. Svo var slegið utan af nýbyggingum og mótatimbur hreinsað, skata kæst og seld, tímarit borin í hús, blóm seld og borin út á Konudaginn, kindahausar sviðnir í stórum stíl og síðan haldnar sviðaveislur og jólasælgæti pakkað og selt.
Hvað var svo gert við afraksturinn? Þegar litið er til hvað Kiwanismenn á Íslandi hafa styrkt koma í ljós fjölmörg merkileg verkefni sem gjarnan urðu kveikja að öðru og meiru. Fjöldamörg ár var skólabörnum gefin endurskinsmerki. Sjónvörp voru keypt og leigð á sjúkrahúsin, Kiwanisklúbburinn Katla hafði frumkvæði að ferliþjónustu fatlaðra með kaupum á sérútbúnum bíl og hlupu Jörfamenn undir bagga með þeim, bæði fjárhagslega og við að aka bílnum. Jörfamenn hafa tekið virkan þátt í sameiginlegum verkefnum Kiwanishreyfingarinnar eins og sölu á K-lyklinum og Hjálmaverkefninu sem hefur vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis og hefur haft ómæld áhrif á öryggi barna. Stuðningur hreyfingarinnar við Geðhjálp gerði þeim kleift að koma sér upp húsnæði. Jörfi styrkti sambýli einhverfra og gaf bíl til að létta undir við að skapa heimilismönnum eðlilegt líf. Einnig styrkti Jörfi fyrstu samtökin sem vöktu athygli á vanda átröskunar og að velferðarkerfið yrði að koma þar til aðstoðar. Þá hefur Jörfi styrkt starfsemi HL-stöðvarinnar og Reykjalunds með kaupum á þjálfunartækjum auk fjölda annarra smærri styrkja og verkefna.
Það er gefandi að finna að stuðningur kemur að liði og ekki síst þegar hann hrindir af stað þróun sem síðar verður sjálfsagður hlutur í okkar velferðarsamfélagi.
Þá hefur fjöldi fyrirlesara komið á fundi Jörfa og flutt skemmtilega, fræðandi og pistla um hin fjölbreyttustu málefni. Einnig hafa heimsóknir aðra klúbba, fyrirtæki og stofnanir verið mjög áhugaverðar og víkkað sjóndeildarhringinn.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í 40 ára sögu Kiwanisklúbbsins Jörfa. En það ætti að gefa örlitla hugmynd um starf í Kiwanisklúbbi og það er virkilega þess virði fyrir alla að athuga með inngöngu í næsta klúbb.
Haraldur Finnsson Jörfafélagi