Stjórnarskipti Jörfa 2013
29.09.2013Laugardaginn 28.september hélt Jörfi stjórnarskiptafund sinn í Salthúsinu í Grindavík . Enn og aftur var hefðbundinn stjórnarskiptafundur Jörfa rammaður inn í óhefðbundna umgjörð.
Raunverulega hófst hátíðin á bílastæði í Mjódd þegar prúðbúnir Kiwanisfélagar og makar þeirra söfnuðust saman í stórum rútubíll sem félagi okkar Bernharð Jóhannesson útvegaði og ók síðan okkur til hagsbóta. Þaðan var haldið klukkan hálf fjögur sem leið liggur suður Reykjanesbraut til Grindavíkur. Á leiðinni flæddi fróðleikur um leið þá sem farin var og sagnir henni tengdar allt frá landnámi til nútímans, allt frá Vífli á Vífilsstöðum, fyrsta Garðbæingnum til orkuveitu í Svartsengi og metanolverksmiðju sem þar er. Í Grindavík bættust þrjú pör í hópinn og voru þá allir samkomugestir saman komnir, alls 40 manns, 20 félgar, 18 makar og umdæmisstjórahjónin okkar Hjördís Harðardóttir og Palli.
Fyrst var menningarsetrið Kvika heimsótt og fræddust menn þar um jarðfræði svæðisins, skoðuðu sýningu um útgerð og saltfiskvinnslu fyrri tíðar og fóru í Guðbergsstofu.
Þegar fólkið var búið að renna úr kaffibolla og orðið fróðleiksþyrst að nýju var aftur haldið af stað, nú undir leiðsögn Halldórs Ingasonar kennara, Grindvíkings frá sjö ára aldri en nú kominn yfir sjötugt. Var ekið um Grindavík sem samanstendur af Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi.
Að kynnisferðinni lokiðnni var komið í Salthúsið, veglegt bjálkahús með góðum veislusölum og ennþá betri mat. Þar var tekið á móti fólkinu með fordrykk áfengum eða óáfengum að vali hvers og eins. Eftir hæfilega aðlögun leitaði fólk inn í veislusalinn og hófst þá fundurinn.
Forseti Jörfa Gunnar Ó. Kvaran setti fund og fól síðan Ævari Breiðfjörð fundarstjórnina. Nýútkomnu félagatali með dagskrá næsta starfsárs var að venju dreift í upphafi fundar ásamt veglegri dagskrá kvöldsins ásamt matseðli. Fundarstörf fóru fram undir borðhaldinu, milli rétta.
Forseti færði Kristjáni Finnssyni gjöf í tilefni af sjötugsafmæli Kristjáns í sumar og fylgdi henn skjöldur sem er ný útfærsla og endurbætt á merki Jörfa og var konunni hans færður blómvöndur. Baldur Árnason nældi fyrsta eintaki af nýju barmmerki Jörfa á umdæmisstjórann og síðan var merkinu dreift til viðstaddra félaga.
Fimm félagar fengu viðurkenningu fyrir 100% mætingu á fundi, þeir Björn Úlfar Sigurðsson, Friðrik Hafberg, Gunnar Ó. Kvaran, Haraldur Finnsson og Jón Jakob Jóhannesson .
Fyrirmyndarfélagi liðins starfsárs var útnefndur Friðjón Hallgrímsson og var honum afhentur farandbikar og konu hans blóm.
Nú hefur Eddusvæði verið lagt af og af því tilefni afhenti Jón Jakob Jóhannesson fyrrum svæðisstjóri Eddusvæðis Hjördísi umdæmisstjóra keðju svæðisstjóra Eddusvæðis með nöfnum allra svæðisstjóranna
innrammaða undir gleri. Ný lög Jörfa voru samþykkti á fundinum og undirrituðu forseti Jörfa Gunnar Ó. Kvaran og ritari klúbbsins Friðjón Hallgrímsson tvö eintök af lögunum. Var umdæmisstjóra afhent annað eintakið en hitt eintakið geymir klúbburinn.
Fráfarandi forseti flutti kveðjuávarp sitt, en síðan tók umdæmisstjóri Hjördís Harðardóttir við fundinum. Fyrsta embættisverk hennar sem umdæmisstjóra fyrir ári síðan var að skipta um stjórn í Jörfa og nú er síðasta embættisverk hennar sem umdæmisstjóra að skipta aftur um stjórn í Jörfa. Þykir Jörfafélögum heiður að. Þá afhenti Gunnari Ó Kvaran nýjum forseta Jörfa Baldri Árnasyni forsetakeðjuna og var mökum þeirra færður blómvöndur. Auk Baldurs og Gunnars eru í nýrri stjórn þeir: Friðjón Hallgrímsson kjörforseti, Haraldur Finnsson ritari, Hafsteinn Sigmundsson féhirðir og Ævar Breiðfjörð erlendur ritari. Meðstjórnendur eru : Bernhard Jóhannesson, Friðrik E. Hafberg, Guðjón Kr. Benediktsson, Jón Jakob Jóhannesson, Guðmundur H. Guðjónsson og Sigursteinn Hjartarson. Nýr forseti Jörfa Baldur Árnason flutti ávarp, þakkaði umdæmisstjóra og færði maka hennar blómvönd. Fundi var síðan slitið og þá var eftirréttur borinn fram ásamt kaffi. Dvaldist veislugestum nokkuð yfir því uns tími var til kominn að halda aftur á heimaslóðir.
Sigursteinn Hjartarson
Ps. Rétt er að láta matseðilinn fljóta með því veislugestir gátu valið milli rétta svo sumir borðuðu afburða góðan saltfiskrétt meðan aðrir fengu sér ekki síður gott lambalæri. Þetta var valið fyrirfram þegar skráð var þátttaka í þessari merku hátíð og tókst afar vel til.
Matseðill
Forréttur: Reyktur lax á salati með piparrótarsósu
Aðalréttir: Ofnbakaður saltfiskur með ratatoulle og kartöflum
eða Lambalæri með rauðvínssósu, steiktu grænmeti og kartöflu
Eftirréttur: Volg eplakaka með karamellu og rjóma - Kaffi