Almennurfundur með fyrirlesara

23.10.2012
Fundur Jörfa númer 683 var haldinn á Broadway við Ármúla mánudaginn 22.október sl.Þetta var almennur fundur með fyrirlesara. Mættir voru 23 félagar og þrír höfðu boðað forfall.Ræðumaður kvöldsins var Jón Bernódusson frá Siglingastofnun rannsóknar og þróunarsviði.Ræddi hann um repju sem er orkujurt  en Siglingastofnun vinnur að verkefni sem miðar að því að finna umhverfisvæna orkugjafa fyrir íslenska fiskiskipaflotann og gaf nýlega út skýrsla um stöðu verkefnisins. Jón Bernódusson verkefnisstjóri veðjar á repjuna og hefur fengið jákvæðar niðurstöður úr athugunum sínum til þessa. "Þetta eldsneyti hefur það fram yfir margar tegundir að það er með svo gott sem sömu orku og venjuleg dísilolía," segir hann og bætir því við að líta megi á olíuna sem unnin er úr repjufræjum sem aukaafurð vegna þess að hratið sem til fellur við olíupressunina greiði allan kostnað við ræktunina.
Góð uppskera á bestu svæðum
Siglingastofnun hóf tilraunir með ræktun á repju og nepju í þessum tilgangi fyrir þremur árum, í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og nokkra bændur. Þar sem best hefur tekist til er uppskeran fyllilega sambærileg við það sem þekkist á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Uppskeran í nágrannalöndunum er 2,2 til 3 tonn af þurrefni af repjufræi á hektara. Uppskeran á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum fór yfir 4 tonn.
Þá bendir Jón á að repjan sé góð landgræðslujurt og því mætti í framtíðinni rækta á svæðum sem ekki eru nýtt til ræktunar í dag. Svartir sandar koma fyrst upp í hugann í því efni en Jón nefnir einnig Melrakkasléttuna sem dæmi. Hefur hann tröllatrú á að þar verði hægt að rækta repju til eldsneytisframleiðslu í framtíðinni.
Jón fór vel yfir þær rannsóknir og tilraunir sem verið er að gera á þessu sviði og var þetta mjög fræðandi , skemmtilegt og fróðlegt erindi hjá honum.
GHG