Stjórnarskipti hjá Jörfa 2012

01.10.2012
 Laugardaginn 29.september  hélt Jörfi  stjórnarskiptafund sinn. Hátíðin byrjaði með því að Ævar Breiðfjörð og frú buðu gestum heim til sín áður en haldið var á veitingastaðin Rúbín í Öskjuhlíðinni þar sem fundurinn fór fram. Forseti Jörfa Pétur Sveinsson setti fundinn og fól svo Sigursteini Hjartarsyni veislustjórnina.  Mættir voru 22 félagar og 23 gestir, þar á meðal  umdæmisstjóri Hjördís Harðardóttir og maki hennar. Nýútkomnu félagatali með dagskrá næsta starfsárs var að venju dreift í upphafi fundar. 
 Forseti  sæmdi Bjargmund Sigurjónsson Silfurstjörnu fyrir frábær störf fyrir Jörfa.  Þá fór forseti með frumsamdar stökur og gamanmál. Baldur Árnason kynnti  ný lög Jörfa, stefnumótun og verklagsreglur og afhenti umdæmisstjóri þetta í bæklingi.  Fimm félagar fengu viðurkenningu fyrir 100% mætingu á fundi, þeir Baldur  Árnason, Hafsteinn Sigmundsson, Jón Jakob Jóhannesson, Pétur Sveinsson og Valur Helgason. Haraldur Finnsson sagði frá framvindu í sögurannsóknum Jörfa og afhenti forseta félagatal og embættismannatal  allt frá stofnun klúbbsins.  Fyrirmyndarfélagi liðins starfsárs var útnefndur Sigursteinn Hjartarson og var honum afhentur bikar og eiginkonu hans blóm. Eiginkonu nýs Jörfafélaga Svanbergs Guðmundssonar voru færð blóm og Baldri Árnasyni færð afmælisgjöf og konu hans blóm. Á meðan þetta fór fram nutu  gestir frábærra veitinga í sérstöku umhverfi, en veitingastaðurinn Rúbín er byggður inn í Öskjuhlíðina og prýða klettaveggir salinn. Nýju merki Jörfa var varpað á tjöld í salnum.  Fráfarandi forseti flutti kveðjuávarp sitt, en síðan tók umdæmisstjóri Hjördís Harðardóttir við fundinum. Hún byrjaði á því að afhenda fjórum félögum viðurkenningar fyrir að vera meðmælendur nýrra félaga, og síðan sá hún um formleg stjórnarskipti, en þetta var fyrsta embættisverk hennar sem umdæmisstjóra, og fórst henni verkið vel úr hendi.  Þá afhenti Pétur nýjum forseta Jörfa Gunnari Ó Kvaran forsetakeðjuna og umdæmisstjóri afhenti mökum þeirra blómvönd. Auk Gunnars og Péturs eru í nýrri stjórn þeir: Hafsteinn Sigmundsson kjörforseti, Friðjón Hallgrímsson ritari, Baldur Árnason féhirðir og Ævar Breiðfjörð erlendur ritari. Meðstjórnendur eru : Friðrik Hafberg, Ingi Viðar Árnason, Jón Jakob Jóhannesson, Sigursteinn Hjartarson og Svanberg Guðmundsson.  Nýr forseti Jörfa Gunnar Ó Kvaran flutti ávarp, þakkaði umdæmisstjóra og færði henni blómvönd og maka hennar fána Jörfa og bauð þeim síðan í sviðaveislu Jörfa sem haldinn verður á Broadway við Ármúla fyrsta vetrardag.