Sumarferð Jörfa 2011

08.08.2011
Helgina 5.-7.ágúst fóru Jörfamenn í sína árlegu sumarútilegu og að þessu sinni var farið að Nesi í Reykholtsdal. Á föstudagskvöldinu var framreidd hin hefðbundna súpa þegar fólk hafði komið sér fyrir og fólk hafði það huggulegt saman. Á laugardaginn var svo farið að Reykholti og þar fræddi sr. Geir Waage okkur um staðinn, söguna og Snorra. Þar er ekki komið að tómum kofunum. Góður 9 holu golfvöllur er í Nesi og voru margir sem nýttu sér aðstöðuna þar. Þá var frábær dagskrá fyrir börnin og endurvaktir margir gamlir leikir, og skemmtu börn á ýmsum aldri sér þarna saman.
Síðdegis var svo farið að huga að matargerð, en Jörfafélagar sáu sjálfir um flotta grillveislu, heilsteikt lambalæri með bökuðum kartöflum, sósu og salati og svo var kaffi og ís frá Erpstöðum í eftirrétt. Við höfðum aðstöðu í golfskálanum til að borða, en vegna fjölda urðu allmargir að sitja úti á palli. Það var metþátttaka, alls komu 85 manns. Við erum svo lánssamir að hafa tvo frábæra harmonikkuleikara í klúbbnum og sáu þeir um að halda uppi fjörinu, hvort sem var í skálanum eða úti á tjaldsvæðinu. Veðrið lék við okkur, þótt við fengjum smá rigningu og það hafi blásið hressilega á köflum.
Þakkir til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn, Jörfafélagar vinna vel saman þegar þarf að gera hlutina, svona ferð eflir innra starfið, þjappar okkur saman og gerir okkur hæfari til að hjálpa öðrum.
 
 
Baldur Árnason, formaður ferðanefndar