Sumarhátíð Jörfa var haldin núna um helgina, 2.-4.júlí. Að þessu sinni í Hafnarskógi gegnt Borgarnesi. Þátttaka var heldur minni en oftast áður. Fótbrot, veikindi, ættarmót og ýmsar aðrar fjölskylduskuldbindingar settu strik í reikning margra.
Veður var gott, hlýtt en dálítill andvari. Dálítil skúr vökvaði okkur rausnarlega um miðjan föstudag en annars hélt úrkoman sig í virðingarverðri fjarlægð frá okkur. T.d. flóðrigndi fyrir hádegi í Borgarnesi á sunnudag meðan varla kom dropi á okkur.
Föstudagskvöldið buðu skemmtinefndarmenn upp á súpu sem ber nafnið Skólastjórasúpa. Ekki var innihaldslýsing gefin upp en hún dugði upphituð í hádegisverð daginn eftir.
Á laugardag heimsóttum við Hvanneyri og fengum þar fína leiðsögn um staðinn, sögu hans sem skólasetur og skoðuðum Búvélasafnið, Ullarsetrið og nýtísku fjós staðarins. Þaðan var haldið í Ferjukot og nutum leiðsagnar og frásagnaríþróttar Þorkels Fjeldsted bónda, sem leiddi okkur um Laxasafnið þar sem getur að líta einstakar minjar um laxveiðar í meira en heila öld. Þarna eru munir frá laxveiðum breskra lorda og lávarða sem sóttu í að veiða í hinum gjöfulu Borgfirsku ám þegar fyrir 1900. Þá er gamla sjoppan í Ferjukoti og eldri kynslóðir muna vel, enn nánast í óbreyttri mynd og geymir gömul vörumerki og muni sem rótuðu upp gömlum minningum. Einnig fengum við að skoða gamla íbúðarhúsið, reist um 1890 og er nánast enn í óbreyttri mynd sem hlýtur að teljast einstakt.
Um kvöldið var sest að veisluborði í Mótel Venus og snætt gómsætt lamb. Síðan sungið og spjallað í samkomutjaldi Jörfa allt fram til háttatíma ráðsettra Jörfafélaga en heldur hefur hann færst fram á síðari árum.
Í heild einkenndist helgin af þægilegri samveru góðra félaga og yngsta kynslóðin naut sín vel í skógarkjarrinu og fjörunni.