Við Jörfafélagar áttum einstaka kvöldstund í húsakynnum Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli í kvöld. Friðrik Höskuldsson stýrimaður hélt þar erindi stutt myndum og texta um Gæsluna, verkefni hennar og verksvið. Áhuginn skein úr hverju andliti Jörfafélaga enda erindið flutt á lifandi og skemmtilegan hátt.
Þegar fræðst var um búnað nýju vélarinnar TF SIF vaknaði ósjálfrátt spurningin: Hvernig náði Gæslan árangri með þeim búnaði sem notaður var þar til fyrir örfáum mánuðum. Þegar kom að björgunarstörfunum kom enn í ljós hve mikils virði starf Landsbjargar og sjálfboðaliðanna þeirra er og hve dýrmætt samstarf þeirra og Gæslunnar er fyrir þjóðina. Verst er að Gæslan skuli vera fjársvelt þótt því væri nú ekki haldið á lofti á þessum fundi. Það vakti athygli hve hógvær öll framsetningin var. Því sterkari voru áhrifin. Þyrlurnar voru í húsi en nýja DAS 8 vélin TF SIF var við gæslustörf þótt úti ríkt náttmyrkur. Búnaður vélarinnar gerir kleift að vinna jafnt að nóttu sem degi svo nú er ekki lengur hægt að fela sig í myrkrinu. Rennur sjálfsagt mörgum lögbrjótnum kalt vatn milli skinns og hörunds þegar sannleikurinn um getu Gæslunnar rennur upp fyrir honum. Eftir spurningar og skoðanaskipti var farið í flugskýlið og þyrlurnar skoðaðar. Þar sást hve nauðsynlegt er að eiga nægan vélakost. Önnur stóra þyrlan var þar í 500 klst. skoðun og á meðan verður að treysta á eina stóra vél, TF LÍF og litlu vélina TF EIR sem er ekki einu sinni hálfdrættingur á við þær stóru. Við félagarnir þökkum Landhelgisgæslunni fyrir móttökurnar og Friðriki sérstaklega fyrir afar skemmtilegt og fræðandi kvöld.
Á þessum fundi söfnuðu Jörfafélagar í sjóð sem síðan verður afhentur Landsbjörgu, þetta voru frjáls framlög frá hverjum og einum, og þar sem ekki var um matarfund að ræða þá miðuðu margir við að gefa upphæð sem hefði farið í matarkaup.
GHG, SH