Stjórnarskiptafundur Jörfa 2009
Laugardagskvöldið 26. september 2009 söfnuðust Jörfafélagar samana til veislu á 19. hæð í Turninum sem Jogvan Færeyingur hefur reist gegnt Smáralindinni í Kópavogi.
Þetta var glæsileg umgjörð um þann merka atburð sem stjórnarskipti í Kiwanis eru alltaf. Safnast var saman kl 19:00 og var boðið upp á fordrykk meðana veislugestir væru að komast í hátíðarskap. Það gekk eftir.
Útsýnið er glæsilegt þarna uppi og salarkynnin eins og best verður á kosið. Þótt strekkingur væri úti varð ekki vart neinnar sveiflu á turninum en ýmsir höfðu upplifað það í fyrri heimsóknum. Svona er nú Jörfi fastur fyrir.
Forseti setti fundinn á slaginu kl. 20:00, bauð veislugesti velkomna, þá sérstaklega nýja umdæmisstjórann Óskar Guðjónsson og konu hans Konný Hjaltadóttur. Bað hann formann móttökunefndar Bjargmund Sigurjónsson að skýra frá mætingu. Mættir voru 20 félagar með maka en tveir höfðu boðað forföll. Þá voru þrír aðrir gestir, umdæmisstjórahjónin og Adda okkar ekkja Valdimars Jörgenssonar Jörfafélaga og frammámanns í Kiwanis til fjölda ára. Fól hann síðan fundinn í hendur fundarstjóra Sigursteini Hjartarsyni.
Meðan beðið var eftir að matur yrði á borð borinn var félagatali klúbbsins dreift til félaga og maka og var lítillega farið yfir innihald þess merka rits. Eftir það rabbaði fundarstjóri um eitt og annað af fullkomnu alvöruleysi og fékk að auki liðsinni veislugesta sem komu í pontu og létu margt flakka. Og svo kom maturinn.
Milli rétta, meðan aðalrétturinn var að setjast til og áður en eftirrétturinn væri á borð borinn veitti forseti viðurkenningar fyrir framgöngu í klúbbnum á starfsárinu. Þetta er val fyrirmyndarfélaga og viðurkenningar fyrir 100 % mætingu á félagsfundum.
Forsætisnefndin, sitjandi forseti Haraldur Finnsson og fráfarandi forseti Jón Jakob völdu fyrirmyndarfélaga ársins. Þeim reyndist valið létt. Fyrirmyndarfélaginn er Ævar Breiðfjörð og var honum færður bikarinn sem nafnbótinni fylgir. Konu Ævars, Ástu Guðjónsdóttur var færður fallegur blómvöndur.
Leifur Ásgrímsson fyrirmyndarfélagi fyrra árs lét bikarinn af hendi en var leystur út með platta til minningar um þennan heiður. Er það mál manna að vel hafi tekist til um val á fyrirmyndarfélaga.
Sjö félagar fengu viðurkenningu fyrir 100% mætingu. Það voru þeir Ævar Breiðfjörð, Björn Úlfar Sigurðsson, Baldur Árnason, Jón Jakob Jóhannesson, Leifur Ásgrímsson og Friðrik Hafberg ásamt forseta Haraldi Finnssyni.
Þegar eftirréttinum hafði verið gerð skil og kaffið ilmaði í bollunum ávarpaði fráfarandi forseti fundinn. Hann hóf mál sitt með því að minnast Valdimars Jörgenssonar og gleðjast yfir því að konan hans Arndís Jónsdóttir skyldi sjá sér fært að vera með okkur þótt það kostaði hana talsvert umstang. Þá gat hann þess að Baldvin Hermannsson hefði hætt í klúbbnum. Hann gladdist yfir því að klúbbnum bættust þrír nýir félagar á starfsárinu, þeir Ingólfur Helgason, Gunnar Kvaran og Ingi Viðar Árnason.
Að loknu ávarpi Fráfarandi forseta fól fundarstjóri fundinn í hendur umdæmisstjórans Óskars Guðjónssonar sem skipti um stjórn með hefðbundnum hætti. Honum til aðstoðar var Guðmundur Helgi Guðjónsson rétt einn margreyndur Jörfafélaginn. Umdæmisstjórinn ávarpaði fundinn velvöldum orðum. Hann gat þess sérstaklega að klúbburinn hefði ásamt nokkrum öðrum orðið fyrirmyndarklúbbur á síðasta ári eins og reyndar mörg undanfarin ár. Að loknum stjórnarskiptunum þakkaði hann fráfarandi stjórn og óskaði þeirri sem tekur nú til hendinni velfarnaðar í starfi og klúbbnum til hamingju með nýju stjórnina.
Þá tók Baldur Árnason hinn nýi forseti Jörfa við stjórninni og ávarpaði fundinn. Hann þakkaði umdæmisstjóra fyrir stjórnarskiptin, hlý orð og árnaðaróskir og færði honum fána Jörfa. Konu hans Konný Hjaltadóttur færði hann fallegan blómvönd. Baldur þakkaði fyrri stjórn og lýsti sig reiðubúinn að takast á við verkefnin sem framundan eru. Baldur hefur valið sér einkunnarorð:
-Aldrei að hörfa – áfram með Jörfa-